Verslun

Birgitta Haukdal og Jóhann Backman

Fiskispjót á austurlenska vísu

fyrir 6

180 gr túnfiskur
180 gr risarækjur
180 gr humar
180 gr skötuselur
1 rauður chili (gætið þess að fræhreinsa hann)
Þumall af engifer
2 rif hvítlaukur
Handfylli steinselja
1 sítróna (safinn úr henni)
1 límóna (safinn úr henni)
1/2 bolli ólífuolía
Grillpinnar

1 bolli kúskús
1 bolli vatn
1/2 kúrbítur
1 rauðlaukur
Ólífuolía til steikingar og í kúskús

Annað meðlæti: Klettasalat

Skerið fiskinn í litla bita og þræðið upp á grillpinna.

Saxið niður hvítlauk, engifer og chili. Setjið í skál ásamt 1/2 bolla af ólífuolíu og safanum úr sítrónunni og límónunni. Saxið einnig steinseljuna niður og bætið við. Hrærið vel saman og hellið síðan yfir fiskteinanna og lofið þeim að marinerast í smástund.

Snöggsteikið síðan upp úr góðri ólífuolíu á pönnu, u.þ.b. 1 mínútu á hvorri hlið.

********************

Innbakaðar nautalundir Wellington

1200 – 1500 gr nautalundir
Smjördeig
1 egg til penslunar

Duxelles

1 askja venjulegir Flúðasveppir
2 Portobello sveppir
Handfylli brúnir Flúðasveppir
1 stór laukur
3 shallot laukar
2 dl rauðvín
1/2 tsk nautakraftur
2 bollar brauðrasp
Salt og pipar eftir smekk

Forsteikið nautalundina upp úr ólífuolíu á pönnu.

Saxið niður laukinn og sveppina. Byrjið á að steikja laukinn upp úr ólífuolíu í góðum potti. Bætið síðan sveppunum við. Saltið og piprið. Setjið rauðvínið og nautakraftinn í og látið krauma í 5 mínútur. Bætið síðan brauðraspinum saman við og látið standa á meðan smjördegið er flatt út. (Takið pottinn af hellunni).

Smyrjið bökunarplötu vel með ólífuolíu. Fletjið út hluta af deginu, nóg til þess að setja nautalundina ofan á það. Setjið síðan nautalundina ofan á. Setjið því næst Duxelle fyllinguna ofan á nautalundina og afganginn af flatta smjördeginu ofan á. Gætið þess að hvergi sjáist í nautalundina.

Penslið yfir með egginu. Gott er að pensla samskeytin vel. Setjið inn í heitan ofn í 18 mín. við 180°C.

********************

Strengjabaunir (meðlæti)

720 gr Strengjabaunir

Strengjabaunirnar eru léttsteiktar upp úr ólífuolíu, saltaðar og pipraðar.

********************

Villisveppasósa

Safinn af nautalundinni þegar hún var steikt á pönnunni.
5 dl vatn
1 dós villisveppir
1 tsk nautakraftur
2 dl rjómi
1 dl portvín
30 gr smjör
2 litlar trufflur (jarðsveppir)

Setjið vatnið í pott ásamt soðinu og nautakraftinum. Bætið villisveppunum út í. Látið sjóða í 15 mínútur.

Sigtið villisveppina frá. Látið krauma og bætið síðan rjómanum við. Því næst fer portvíníð út í. Smjörið er síðan skorið í litla bita og sett saman við til þess að þykkja sósuna.

Að lokum eru trufflurnar saxaðar smátt og settar saman við.

********************


Súkkulaðikaka A la Birgitta

200 gr ósaltað smjör
180 gr 70% Síríus súkkulaði
180 gr hveiti
250 gr sykur
4 egg
4 eggjarauður

Súkkulaðið og smjörið er brætt saman yfir vatnsbaði. Því næst er hveitinu bætt út í, síðan sykrinum og að lokum eggjunum og eggjarauðunum. Blandið varlega saman.

Setjið í lítil muffinsmót og bakið í u.þ.b. 5 mín. Við 170°C.

Ómótstæðilega hindberjasósan

200 gr hindber, fersk eða frosin
1/2 dl vatn (ef berin eru fersk, annars ekki)
75 gr sykur
75gr rauðvín
Börkur af einni sítrónu

Rauðvínið, sykurinn og sítrónubörkurinn er sett saman í pott. Þegar suðan kemur upp látið þá hindberin út í. Látið sjóða niður, við frekar vægan hita, þar til sósan fer að þykkna.

Sigtið í skál og kælið áður en hún er borin fram.